Ertu að leita að nýju verkefni fyrir heimspekihópana þína eða viltu prófa eitthvað nýtt í lífsleikni?
Neðst í Fréttabréfinu eru ábendingar um skemmtileg verkefni í Verkefnabanka Heimspekitorgsins

Fréttabréf heimspekikennara nr. 23, júní 2021

✦ ✦ ✦
Frá Félagi heimspekikennara


Aðalfundur félagsins var haldinn 3. júní. Í stjórn voru kosin:

Skúli Pálsson, formaðaður
Jóhann Valur Klausen, ritari
Kristian Guttesen, gjaldkeri

Jóhann Björnsson og Ása Lind Finnbogadóttir verða varamenn.

Starfsemi var frekar lítil í félaginu á síðasta ári vegna samkomubanns þrátt fyrir ýmis áform. Vonandi verður hægt að framkvæma eitthvað af því á næstunni.

Næsti viðburður er þó ákveðinn: námskeið á Zoom með Oscar Brenifier og Isabelle Millon 25. og 26. júní. Námskeiðið er mikill fengur fyrir íslenska kennara.

Félagið stendur þokkalega fjárhagslega þar sem það hefur fengið styrki frá Kennarasambandinu en útgjöld hafa ekki verið mikil síðastliðið ár.

✦ ✦ ✦
Fastir liðir


Bókahornið er nýr dálkur í Fréttabréfi heimspekikenannara þar sem sagt er í stuttu máli frá bókum sem kennarar gætu leitað í við undirbúning kennslu. Jóhann Björnsson, heimspekikennari við Réttarholtsskóla og doktorsnemi við Menntavísindasvið, ríður á vaðið og segir frá bókinni Children´s book of philosophy. An introduction to the world´s great thinkers and their big ideas eftir þau Söruh Tomley og Marcus Weeks, sem út kom árið 2015. Hér til hliðar og þar fyrir ofan eru myndir innan úr bókinni.

Af heimspekikennurum

Brynhildur Sigurðardóttir segir frá

Brynhildur Sigurðardóttir, heimspekikennari í Stapaskóla, birtir hér örpistil um það sem hún er að fást við í kennslu.

Heimspekismiðja í 5. og 6. bekk

Í vetur kenndi ég í fyrsta sinn heimspeki á miðstigi. Ég er kennari í Stapaskóla og kenndi nemendum í 5. og 6. bekk heimspekismiðju, sex tíma á viku (þrjá tvöfalda tíma) í sjö vikur hver hópur. Í hópunum voru 7-12 nemendur og aðrir nemendur í árgöngunum sóttu á sama tíma smiðjur í tækni, list- og verkgreinum.

Ég prófaði alls konar verkefni með krökkunum, sumt gekk herfilega og annað var mjög skemmtilegt. Það sem reyndist erfiðast var að nota „klassískan Lipman“, þ.e. aðferðina hópur les texta – nemendur setja fram spurningar – samræða tvinnuð út frá spurningunum – heimspekilegar æfingar nýttar til dýpkunar. Nemendum gekk illa að tengja við textana og fannst eigin spurningar lítils virði.

Það sem gekk best voru æfingar sem við unnum á hreyfingu og hugtakaskalar.  Lesa meira ›

Kallað eftir efni
Sendið okkur örstutta línu á netfangið 
heimspekikennarar@gmail.com, þar sem þið greinið frá ykkar starfi. Eins, megið þið segja frá áhugaverðum póstlistum, greinum og/eða kennsluefni sem þið kunnið að hafa rekist á.

Hér má skoða eldri tölublöð fréttabréfsins.

Bókahornið

Children´s book of philosophy. An introduction to the world´s great thinkers and their big ideas

Hér er bók sem gæti gagnast heimspekikennurum við að finna hugmyndir til þess að vinna með í kennslustundum. Þó titillinn segi að hér sé á ferðinni bók fyrir börn þá myndi ég halda að hún höfði helst til unglinga og mögulega nemenda á miðstigi. Kennarar sem ætla sér að nota hana þyrftu að útfæra efnið með hliðsjón af nemendahópnum. Það er ekki mikið lagt upp úr að kynna heimspekinga eða heimspekisöguna heldur er megináherslan á hugmyndir, viðfangsefni heimspekinnar og heimspekilegar spurningar. Bókin samanstendur af stuttum og skýrum textum þannig að sjálfsagt er að grípa niður í hana hvar sem er. Hún er ríkulega myndskreytt sem gerir hana enn áhugaverðari. Á meðal spurninga sem fjallað er um eru:

– Hvað er óendanleiki? – Hvað er ekkert? Er líf eftir dauðann?
– Hvernig veit ég hvað þú ert að hugsa? – Getur maður treyst skynfærunum? – Eru manneskjur meira virði en dýr? – Er ritskoðun réttlætanleg? – Verður einhvern tímann friður í heiminum?

Bókin sem er 141 síða kom út í Bretlandi 2015 á vegum Penguin Random House og eru höfundar hennar Sarah Tomley og Marcus Weeks.


Jóhann Björnsson

✦ ✦ ✦
Úr Verkefnabanka Heimspekitorgsins


Grunnuppskrift að heimspekilegri samræðu

Heimspekilega samræðu má skipuleggja á margvíslegan hátt en á þessu verkefnablaði er gefin lýsing á ferli sem gott er að byrja á og leggja til grundvallar í samræðuþjálfun nemenda. Þetta ferli má laga að margvíslegum viðfangsefnum og það getur tekið stuttan eða langan tíma í framkvæmd eftir því hvort annars konar verkefnum er fléttað inn í samræðuhlutann. Lesa meira ›

Að velja spurningu til samræðu

Þegar hópur er kominn með langan lista af spurningum upp á töflu getur verið flókið að ákveða hvar eigi að hefjast handa til að koma hópnum af stað í samræðu.  Það getur verið fljótlegt og gott að láta nemendur kjósa hvaða spurningu á að byrja á að ræða. Nemendur kunna yfirleitt að meta þessa aðferð, þeim finnst hún sanngjörn og sætta sig við að úrslit kosninga í hópnum séu bindandi fyrir allan hópinn. Lesa meira ›

Að ljúka samræðu

Í hita leiksins er hætt á kennarinn gleymi  sér í samræðunni með nemendum. En það er mikilvægt að passa upp á að hjálpa þeim að loka samræðunni, draga hana saman eða meta niðurstöður hennar á einhvern hátt áður en næsta verkefni tekur við – hvort sem það eru frímínútur eða næsta heimspekilega spurning. Hér koma nokkrar uppskriftir að því hvernig hægt er að ljúka samræðu. Lesa meira ›

facebookhomepage

Afskráning af póstlista | 
Vefútgáfa fréttabréfsins

Já takk, skrá mig á póstlista fréttabréfsins! ☺

Merki Félags heimspekikennara: Ingimar Waage
Mynd í haus: Kristian Guttesen

Sent with Get a Newsletter